Í blóma lífsins

iblomalifsinsKonur og karlar í blóma lífsins, nýtt og spennandi æviskeið.

Upp úr fertugu fara í hönd miklar breytingar í lífi fólks og spennandi tækifæri myndast í einkalífi og starfi. Á miðjum aldri er sálrænn þroski, vitsmunageta og félgasleg hæfni í hámarki. Í bókinni er fjallað um þetta umbreytingaskeið og skyggnst jöfnum höndum inn í veruleika og sálarlíf karla og kvenna á þessum árum. Ýmsum ágengum spurningum er svarað og hulunni svipt af málum sem hafa verið umlukin þögn. Byggt er á nýjustu rannsóknum á þessu sviði sem og áratuga reynslu höfunda sem sálfræðinga.

Versla bók

 

 

Hvað gerist á miðjum aldri?

Hvað er miðlífskreppa?

Hverju standa konur frammi fyrir á þessu æviskeiði?
Fara karlar á breytingaskeið?
Náin tengsl, tímamót og áföll.
Dýpri þroski og persónustyrkur.

Í Blóma Lífsins, 2003. Álfheiður Steinþórsdóttir og Guðfinna Eydal.

Úr formála að bókinni:
"Sem sálfræðingar störfum við gjarnan með fólki sem er komið um og yfir fertugt og vitum þess vegna að miður aldur er lífsskeið sem vekur blendnar tilfinningar. Við gerðum okkur einnig ljóst fyrir mörgum árum að við værum sjálfar komnar á miðjan aldur. Vitundin um það olli vangaveltum um það hvort nú væri þess að vænta að við sigldum inn í miðlífskreppu og stöðnun og óvirkni væri á næsta leiti. En um leið fundum við greinilega að svona var þessu alls ekki farið. Þvert á móti hafði lífið ekki áður einkennst af svo mikilli virkni og og áhuga - tíminn nægði varla fyrir viðfangsefnin. Við fengum smám saman brennandi áhuga á að kanna þetta tímabil í lífi mannsins frekar.
Fljótlega komumst við að því að það sem var skrifað um miðjan aldur einkenndist af neikvæðni og fordómum í bland við við góðlátlegt grín og jafnvel hæðni í garð þeirra sem eru miðaldra. Klisjur á borð við "hún er bara móðursjúk á breytingarskeiði" eða "þetta er örugglega grái fiðringurinn" lýstu þessu vel.Rannsóknir voru vandfundnar og það sýndi sig að aðeins eru um 30 ár frá því að fyrstu skrif komu fram um þetta þróunarskeið í lífi mannsins. Við leituðum víða fanga og tókst að fá yfirlit yfir það sem er að gerst í rannsóknum og skrifum um miðjan aldur báðum megin Atlantshafsins.
Markmiðið með bókinni er að miðla þekkingu um þetta tímabil og einnig að benda á þann sérstaka þroska og færni sem fólk hefur gjarnan öðlast á þessum aldri og sem opnar því ný tækifæri og möguleika í framtíðinni. Þegar fólk er á miðjum aldri hefur það meiri tök en áður á að hafa áhrif á líf sitt og taka meðvitaða afstöðu til þess hvernig það vill efla sjálft sig og öðlast hamingju. Í þessu sambandi er mikilvæg sú staðreynd að við lifum bæði lengur, erum heilsubetri og mun virkari en áður tíðkaðist."