Sálfræði einkalífsins

Sálfræði-einkalífsins-175x267Sálfræði einkalífsins er einstakur leiðarvísir í margbrotnu lífi nútímafólks. Í bókinni er fjallað um hvað mótar persónuleika okkar og hvernig við getum tekist á við þann vanda og þau tækifæri sem mæta okkur í einkalífi og starfi. Hér er að finna svör við fjölmörgum áleitnum spurningum sem skjóta upp kollinum á lífsleiðinni.

Versla bók

 

 

 

 

 

 

Hvað er mikilvægt í lífinu?
Hvernig persóna er ég?
Hvernig er heilbrigð fjölskylda?
Hvað einkennir gott samband?
Hvernig myndast ágreiningur í samböndum?
Er til "góður" skilnaður?
Hverjir halda framhjá?
Hverjir eru kostir þess að búa einn?
Sambúð í annað sinn: hvað reynir á?
Er miðaldrakreppan óumflýjanleg?
Hvernig er breytingaskeið kvenna og karla?
Er hægt að læra á lífið?

Sálfræði Einkalífsins

Úr formála að bókinni:

það eru mörg ár síðan við tókum ákvörðun um að skrifa bók um sálfræði einkalífsins. Mikil þekking hefur orðið til innan sálfræðinnar og rannsóknum á sálfræði hefur fleygt fram. Okkur langaði að gefa fólki hlutdeild í allri þeirri vitneskju sem til er um fullorðinsárin og samtímis miðla af eigin reynslu í starfi. Undirbúningur og heimildaleit hefur staðið lengi yfir enda er komið víða við í bókinni og fjallað um marga þætti í lífi og þroska manna.
Sálfræðin hefur tekið miklum stakkaskiptum síðastliðna áratugi og nú á tímum er hún bæði viðurkennd og virt sem vísindagrein. Við sem höfum tekið þátt í að móta sálfræðina á Íslandi síðastliðinn aldarfjórðung vitum glöggt hvernig staða sálfræðinnar hefur styrkst og áhugi fyrir greininni vaxið í hugum fólks hér á landi. Um það vitnar ekki síst allur sá fjöldi sem leitar til sálfræðinga í dag.
Í þau átján ár sem við höfum starfað í eigin fyrirtæki höfum við kynnst margbreytileika lífsins, gleði og sorgum fólks. Sumir komast auðveldar í gegnum lífið en aðrir, en allir verða einhvern tíma að glíma við flókinn vanda sem kostar uppgjör, nýja hugsun og kjark til að halda áfram.
Stundum geta tímamótin eða áföllin í lífinu verið þess eðlis að manneskjan á þann eina kost að takast í alvöru á við sjálfa sig til að bíða ekki tjón á sálu sinni. Í starfi höfum við oft séð hver styrkur fólks getur verið ótrúlega mikill þegar á brattann er að sækja og erfiðleikar virðast nær óyfirstíganlegir. Einnig höfum við orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að sjá fólk öðlast meiri lífshamingju þegar það breytir lífi sínu og fylgir ákvörðunum eftir af festu og einurð.

Sálfræði einkalífsins er fyrst og fremst hugsuð sem bók sem vekur lesandann til umhugsunar um eigin stöðu, samskipti við aðra og hvernig hægt er að takast á við lífið og tilveruna. Bókin er byggð á sálfræðilegum rannsóknum og hugmyndum ýmissa fræðimanna en ekki síst á reynslu okkar úr starfi. Í henni eru víða dregnar upp svipmyndir úr lífinu en öll dæmin eru tilbúin og persónurnar eiga sér ekki fyrirmyndir í raunveruleikanum.
Það er von okkar að bókin veri gagnleg, að hún efli skilning á sálarlífi mannsins, auki á samkennd og geri fólki auðveldara að fást við veruleika sinn í
blíðu og stríðu. Þá er tilgangnum náð.

Álfheiður Steiþórsdóttir og Guðfinna Eydal.