Sjálfsstyrking og samskipti

Sjálfsstyrking og samskipti 

Kennarar: Álfheiður Steinþórsdóttir og Guðfinna Eydal, sérfræðingar í klíniskri sálfræði.

Innri og Ytri Sjálfsstyrkur

Sumar konur finna tilfinnanlegan skort á sjálfsstyrk og telja að það hái þeim bæði hvað varðar innri líðan, samskipti við aðra og út á við. En sjálfsstyrkur getur líka birtist á annan hátt. Sumar konur sýna sjálfsstyrk út á við þannig að aðrir skynja að þær séu full af sjálfstrausti. Innra með sér getur þó konunni fundist hún vera óörugg og með vanmetakennd.  Hið ytra og innra  þarf helst að fara saman þannig að jafnvægi sé á milli þess sem maður finnur sjálfur og þess sem hann sýnir út á við.

 

Góður Sjálfsstyrkur   

Sá sem hefur góðan sjálfsstyrk á auðveldar með að vega og meta aðstæður og finna lausnir, bæði í meðbyr og mótbyr. Athuganir sýna að þegar sjálfsstyrkur er tiltölulega stöðugur og fólk metur sig raunhæft leiðir það til meiri hamingju og heilbrigðs lífs. Góður sjálfsstyrkur hefur líka góð áhrif á skapferli og kjark til að takast á við sjálfan sig og samskipti við aðra. Lítill sjálfsstyrkur hefur í för með sér vanmat og dregur að sama skapi úr kjarki til  að takast á lífið og það sem að höndum ber.

Á námskeiðinu er lögð áhersla á að þáttakendur átti sig betur á hvernig sjálfsstyrkur þeirra er í dag og kynnist leiðum til að auka á jafnvægi og fá betri stjórn á eigin lífi.

Í upphafi námskeiðs er þáttakendum boðið að fylla í persónulegt mat og í kjölfarið að átta sig á eigin persónulegum stíl í samskiptum og hvað megi betur fara. Áhersla er lögð á að gera sér grein fyrir viðbrögðum annarra og hvernig best sé að takast á við ólíkt fólk. Erfið samskipti og ágreiningur eru markvisst tekin fyrir. Kennt er hvernig megi finna lausnir í slíkum aðstæðum þannig að sjálfstyrkur eflist til frambúðar.

Kennslan samanstendur af fyrirlestrum, verkefnum og umræðum.